Archive

Archive for júlí, 2007

Tæknipistill

júlí 31, 2007 1 athugasemd

Jæja þá er komið að því lesendur góðir að eitthvað hefur gerst í tæknimálum. Ég hafði keypt tölvuskjá um daginn sem ég var ekki ýkja ánægður með, þannig að ég skilaði honum og pantaði nýjan í gær af Amazon. Þeir lofuðu nýjum skjá sem og lyklaborðinu er ég pantaði á sólarhring heim að dyrum. Þeir stóðu við gefið loforð og vel það. Sendingin skilaði sér á innan við 24 tímum. Telur fréttaritarinn að um kjarakaup hafi verið að ræða 22″ Samsung hágæðaskjár fyrir 25.000 kr. tæpar en kostar 39.990 í borg óttans Reykjavík.

Það kom að máli við mig maður úr fjármáladeildinni og fór að spyrja mig út í Top Gear þátt sem fjallaði um kappakstur á hundasleða og Toyotu Hilux bifreið. Hann var rosa hissa og sagðist aldrei hafa séð slíkan dreka. Ég fékk svo myndbandið sent frá kollega mínum, mín fyrstu viðbrögð voru „Ha ?“
Þetta var bara venjulegur á Hilux á blöðrum, ég gerði mér sérstaka ferð í fjármáladeildina til að láta manninn vita að svona bílar sæust í miðborg óttans jafnvel um hásumar. Dæmi svo hver sem vill.

Toyotan sem Top Gear keyrði á pólinn

Ég geri ráð fyrir öðrum tækjapistli á morgun :) Það gengur á ýmsu hérna. Ekki má gleyma því að hér var keypt 30 lítra ryðfrí ruslafata sem og ýmislegt annað eins og sápukúlumaskínan Gazillion Gazooka smellið á tengilinn til að sjá gripinn hann var á hálfvirði í búðinni. Ég býst við mikilli stemmningu á morgun hjá föður og dóttur þegar gripurinn verður tekinn í gagnið. Við vorum með lítið sápukúluapparat sem Ragnheiður kom með og vakti það mikla lukku hjá öllum viðstöddum en við þurfum að tæknivæða sápukúlurnar eins og annað.

Gazillion Gazooka

Categories: Uncategorized

Sumarið er komið

júlí 31, 2007 2 ummæli

Loksins kom sumarið. Sólveig er búin að vera úti í allan dag á stuttbuxum, bol og með sólhatt.   Hér er hún að gæða sér á epladjús og Special-K eftir langan dag.

Sólveig í sumarfötum

Categories: Uncategorized

Húsmæðraorlof

júlí 29, 2007 5 ummæli

Í gær brá ég undir mig betri fætinum og lagði upp í lestarferð til London. Ferðin gekk vel, var c.a. einn og hálfan tíma að koma mér á áfangastað. Tilgangur ferðarinnar var „deit“ með Ragnheiði Japansbúa. Ég hafði fengið það hlutverk að finna handa okkur hótel til að gista á þessa einu nótt. Á netinu fann ég hótel sem var í Knightsbridge, rétt hjá Harrods, í rólegri götu, ekki of dýrt og ekki of ódýrt, hafði fengið 8 í einkunn hjá fyrri gestum skv. þessari vefsíðu.

Ég byrjaði á því að koma dótinu mínu fyrir á hótelinu og fór svo að labba um nágrennið, fór í Harrods, þar voru útsölulok og alveg pakkað af fólki. Ég fór svo á Pret-a-manger og náði mér í samloku og nasl og fór á hótelherbergið að „chilla“. Ragga kom svo um kvöldmatarleytið og var mjög gaman að hitta hana. Við fórum bara strax út og löbbuðum og fundum okkur ítalskan stað til að borða á. Vorum svo að spjalla og labba um. Við fórum svo upp á hótel að ganga frá flugvallarferð Röggu morgunin eftir og svo fórum við bara inn í herbergi að tala meira og lesa blöð. Ragga var svo alveg búin á því eftir langt ferðalag og sofnaði fljótlega.

Ég sat uppi í rúmi að lesa blöðin þegar ég tók eftir því að pokinn undan samlokunni datt á hliðina (ég hafði s.s. skilið hann eftir á gólfinu með pakkningunni undan samlokunni inní), ég lagaði pokann eitthvað til, hélt áfram að lesa og heyrði svo að hann datt aftur á hliðina. Þetta var eitthvað að pirra mig, þannig að ég fór fram úr, setti pokann í ruslið og fór aftur upp í rúm. Þá heyrði ég skrjáf í dagblaðinu sem var á gólfinu, lít niður og sé mús hlaupa eftir gólfinu. Fékk taugaáfall, setti íslandsmet í hástökki án atrennu í rúminu og hrópaði „Ragga, það er mús í herberginu!!!“ og hún hrökk upp við þetta og greip símann til að hringja í afgreiðsluna. Við vorum svo ekki klárar á númerinu í afgreiðslunni þannig að ég ákvað bara að fara fram á náttfötunum og sækja einhvern, ég tók svaka flott langstökk fram úr rúminu (var ekki mikið til í að ganga á gólfinu, með mús hlaupandi um).

mússí mússí mússí

Fór í afgreiðsluna og sagði stráknum þar hvað hafði gerst og hann kom með mér, vopnaður vasaljósi til að finna músina. Hann reyndist vera skíthræddur við mýs líka og gekk um herbergið segjandi „euw, i hate mice“, „it’s probably gonna jump on me“. Okkur Röggu datt báðum í hug atriði úr sex and the city, þegar Charlotte var að deita „pastry chef-inn“, frekar gay strákgreyið :) . Þrátt fyrir ítarlega leit, fannst músin ekki aftur, sennilega farin fram eða út um holuna sem hún kom inn um upphaflega. Við ákváðum að vera bara í herberginu áfram, allt of mikið vesen að vera að flytja okkur úr þessu, bara 4 tímar í að Ragga færi og ég fljótlega eftir það. Hins vegar var ég með svo mikinn hroll að mér kom ekki dúr á auga. Sá fyrir mér músina klifra upp í rúm, grípa í lakið og skríða svo smám saman upp í til okkar og naga í okkur (fæ hroll við að skrifa þetta). Ragga fór svo um fjögurleytið og ég ákvað að drífa mig heim upp úr 8. Fór í morgunmat á Starbucks, gat ekki hugsað mér að fara í morgunmat í músarholunni.

Þetta kenndi mér allavega að spara ekki í hótelkostnaði. Næst er það bara hæð á Mandarin Oriental og 10.000 punda ávaxtakarfa, no more no less.

Það var allavega mjög gaman að hitta Röggu og hlakka ég til að koma heim í september og taka nokkur karaoke lög heima hjá henni :). Er þetta lag til í karaoke græjunni??

Ég komst svo heim við illan leik, lestin beint til Cambridge gekk ekki, þannig að ég fór heim eftir ýmsum krókaleiðum, endaði með rútu síðasta spölinn. Var mjög þreytt, en fegin að komast heim.

Categories: Fréttir

Fun friday

júlí 27, 2007 2 ummæli

Í dag var sko aldeilis gaman hjá okkur. Óskar fór að vinna í Reading í dag og þurfti að leggja af stað héðan um sjöleytið. Við vorum því öll komin snemma á fætur í dag. Við Solla vorum bara í rólegheitum, morgunmatur, Latibær og litabók var morgunprógramið. Simon vinnufélagi Óskars ætlaði að koma við hjá okkur með nýbakað brauð og þess vegna vorum við bara inni. Við erum það heppin að þekkja alltaf einhvern bakara, eða a.m.k. bakarísstarfsmann, þar sem við búum hverju sinni. Óskar hafði s.s. minnst á það við Simon að brauð væri bara vont í Englandi, allt of sætt á bragðið. Konan hans Simons vinnur í bakaríi og hann sagðist geta útvegað okkur gott brauð. Um níuleytið hringdi Óskar svo og sagði mér að Simon hefði staðið fyrir utan hjá okkur og hringt dyrabjöllunni og enginn svarað. Spurði mig svo „erum við með dyrabjöllu?“. Ég sagði honum að það væri dyrabjalla, en hún væri ótengd. Simon hafði bara skilið brauðið eftir fyrir utan, þannig að þar beið það eftir okkur, nýbakað og ilmandi. Svakalega gott og þvílíkur lúxus að þekkja svona fólk.

Við Solla fórum svo út í góða veðrið, já það var sól í dag. Fórum í göngutúr, róló og búðina. Eftir hádegismat lögðum við okkur saman í heila tvo tíma, gott að vera „heimaliggjandi húsmóðir“. Eftir blundinn skelltum við okkur svo í strætó inn til Cambridge, Solla er öll að sjóast í strætóferðum. Vill samt enn ríghalda í mig alla leið. Í dag var hundur í strætó og þótti það mjög merkilegt. „voffi dædó“ var sagt reglulega alla leiðina. Þegar í bæinn var komið byrjuðum við á því að sækja gleraugun mín, myndir af þeirri dýrð verða birtar síðar. Svo löbbuðum við niðri bæ, að bökkum Cam, horfðum á bátana og mannlífið. Sollu fannst mjög gaman að horfa á bátana. Við löbbuðum svo meðfram ánni og enduðum á róló í stórum almenningsgarði. Fórum svo að hitta Óskar í Staples, þar keyptum við skrifborð og skrifborðsstól. Enduðum svo á Pizza Hut, þreytt eftir langan dag.

Categories: Uncategorized

Litli Einstein

júlí 26, 2007 3 ummæli

Í dag vorum við Solla bara inni vegna veðurs, það ringdi „hundum og köttum“. Gerðum reyndar eina tilraun til að fara á þríhjólinu út á róló, en þurftum frá að hverfa, við lítinn fögnuð. Dagurinn fór þ.a.l. bara í það að teikna, horfa á Latabæ, kubba og púsla. Solla á svona stafrófspúsl og við vorum að leika með það og ég var svona að benda á stafina og segja hver ætti hvaða staf, „Þetta er A, það er stafurinn hans Axels“ o.s.frv. Svo í kvöld þegar hún var að fara að hátta var hún eitthvað að leika með stafina, kom svo með A-ið til mín og sagði „Agsi“ og ég varð náttúrulega ofur-stolt móðir. Prófaði svo bara að gamni að segja „hvaða staf á Flóki“ og viti menn, hún fór í hrúguna og kom með F til baka. Ég átti bara ekki orð og prófaði enn einu sinni „hvaða staf á Tinna“ og eins og við mannin mælt, hún fór í hrúguna og kom með T til baka. Þannig að til að sanna endanlega að barnið er snillingur spurði ég hana „hvaða staf á pabbi“ og hún fór og sótti O. :) Hún er nýorðin 2ja ára :) . Við Óskar sprungum af stolti í kvöld. Nú hefst stíft þjálfunarprógram, algebra á morgnanna og latneskar sagnir eftir hádegi, klassísk tónlist á kvöldin og Tai-chi um helgar :) .

Planið í dag hafði verið að fara í bæinn að sækja gleraugun mín, en vegna veðurs ákvað ég að fresta því til morguns. Hef verið gleraugnalaus það lengi (fyrir utan þjóðvegagleraugun mín, sem eru ekki sett upp í dagsbirtu) að ég ætti að lifa af einn dag enn. Vona að ég detti ekki í stiganum í kvöld.

Þetta finnst mér annars mjög fyndin frétt. Heitir meira að segja Óskar, þeir eru greinilega allir snillingar á sínu sviði. Mér dettur reyndar í hug Kanínan með ljáinn, hún var svöl. (Fyrir þá sem hafa endalausan tíma skal bent á þetta, hér er hægt að gleyma sér alveg).

Categories: Uncategorized

Hálfsáruppgjör og aðrar fréttir

júlí 25, 2007 1 athugasemd

Það bar helst til tíðinda hér í dag að hálfsárs uppgjör Amino var birt í dag. Það er hægt að nálgast hérna.En fyrir þá sem vita ekki hvað Amino Communications er. Þá er það fyrirtækið sem ég vinn fyrir. Það framleiðir myndlykla sem notast við stafræna dreifileið sbr. ADSL eða ljósleiðara.

Á öðrum vígstöðvum eru þær fréttir að eitthvað af dótinu okkar fór í skip í dag og ætti að berast í næstu viku til okkar. Það verða fagnaðarfundir við Rosendahl glös, Kitchen Aid og ýmislegt annað.

Einnig fengum við borðstofuborðið okkar í dag. Þetta er myndargripur. Heimasætunni fannst súrt að platan ætti ekki að vera á gólfinu í ljósi þess að mun skemmtilegra var að geta gengið á borðplötunni þegar borðið stóð á haus. Það er magnað að heyra hvað hún talar orðið mikið. Spyr á morgnana hvað er verið að gera „pabbi aka sig“ (pabbi
að raka sig). Í dag var Beggó með hrífu út í garði að raka og þá fann hún út að „Mamma aka sig“(Mamma rakar sig).

Mér varð um og ó þegar ég sá barn sem var yngra en Sólveig sem var að sturta í sig heilum smartís stauk fólk er bara ekki í lagi. Einnig ber mikið á gosþambi hjá börnum á aldrinum 3-5 ára ef maður fer í morgunverð eitthvað út í bæ sem gerist ekki oft :)

Categories: Uncategorized

hitt og þetta

júlí 25, 2007 2 ummæli

Áhugasömum lesendum er hér með bent á að kjötmetið í síðustu færslu var ekki allt borðað á einu bretti. Við erum ekki að ala upp tilvonandi vaxtarræktarkempu sem fær eingöngu prótín og það sem fer á grillið okkar er ekki til sölu. Þó það vanti almennilega grillsjoppu í Cambourne þá ætlum við ekki að taka það hlutverk að okkur.

Þetta minnir á söguna af því þegar við Solla komum hér um páskana, þá vorum við alltaf að leita að „maple syrop“ til að geta haft fancy amerískan morgunmat á páskadag. Fundum þetta hvergi og við vorum líka að svipast um eftir örbylgjupoppi, það virtist hvergi fást heldur. Þannig að Óskar fékk það hlutverk þegar við fórum að finna þessar tvær vörutegundir. Hann fór í einhvern súpermarkað og spyr starfsmann „Áttu maple syrop og örbylgjupopp?“ og starfsmaðurinn leit á hann stórum augum og sagði „Passar það saman???“. Hafði aldrei heyrt um annað eins ógeð.

Héðan er annars allt flott að frétta. Solla talar og talar útí eitt og sífellt bætast við ný orð. Uppáhaldið þessa dagana er Latibær, eða „pæ“ eins og hún kallar það. Situr alveg stjörf yfir þessum þáttum og segir frá því sem er að gerast, t.d. byrjaði einn þátturinn á því að íþróttaálfurinn var í rúminu og svo hringdi vekjaraklukkan og hann stökk fram úr, fullklæddur. Solla benti á hann og sagði „nattfutununun“ og ég sagði „já, hann er í náttfötunum“ . Þannig gekk þetta út þáttinn, alltaf þegar íþróttaálfurinn birtist sagði hún „nattfutununun“.  Svo fékk hún Latabæjarjógúrt í hádeginu (pædógút) og benti á íþróttaálfinn og sagði „nattfutununun“.  Alger dúlla.

Þessi færsla var skrifuð í gær, þannig að ég óska Björgu systur minni til hamingju með afmælið 24. júlí.  Einnig fær amma Björg afmæliskveðju sama dag.    Í dag 25. júlí á svo Benedikt Flóki afmæli,  til hamingju með daginn!!!!

Categories: Uncategorized
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.