Sarpur

Archive for nóvember, 2007

Í skólanum

Í dag fórum við Solla í svakalega skemmtilega play-grúppu. Einn af skólunum hér í bænum er með opið hús fyrir 2ja ára börn á föstudögum milli 1 og 3. Hérna byrja börn 3 ára í pre-school og það sem við fórum í dag var nokkurs konar pre-pre-school, þ.e. tækifæri fyrir 2 ára börn að kynnast aðeins starfseminni og vera búin að venjast staðnum áður en þau byrja í skóla. Þarna var hægt að leika sér, föndra, spila tónlist og ýmislegt fleira. Solla fékk að mála og svo stóð hún sig svakalega vel í lokin þegar allir voru að syngja saman. Hún er mjög fljót að ná hreyfingum við lög. Hún lék sér mjög vel við hina krakkana og ég vissi varla af henni, sat bara í rólegheitum að spjalla við hinar mömmurnar. Í eitt skipti heyrði ég reyndar skaðræðisöskur og því fylgdi „NEI, vitillikki jólasveininn“, þá hafði strákur með jólasveinagrímu króað hana af inn í horni og hún var ekki sátt, þannig að ég þurfti að bjarga henni.

Það fer semsagt að styttast í skólagöngu hennar og ég verð að fara að koma henni á einhverja biðlista hér í bænum. Það er svoddan frjósemi hérna að skólarnir eru allir orðnir fullir og verið að byggja fleiri.

Um helgina fáum við gesti og förum hugsanlega í massíft jólashopping. Svo held ég hugsanlega áfram að jólaskreyta aðeins, er að laumast í þetta svo lítið beri á, eina seríu í einu þangað til húsið verður eins og hjá Mr. Griswold.

Categories: Fréttir

Tveggja ára að verða fjórtán

nóvember 26, 2007 3 ummæli

Þessa helgina hefur prinsessan á bænum verið með það sem kallast unglingaveiki.  Þessi veiki lýsir sér í því að hlýða engu sem sagt er við sig, gráta með miklum tilþrifum þegar manni er bannað eitthvað og svara öllu bara með orðunum „já“ og „nei“, nema í þessu tilfelli þýðir nei já og já nei.  Í dag vorum við að fara í dansinn og Solla fór inn í skáp hjá sér og náði í pils, bleikt sítt sumarpils sem hentaði ekki í nóvemberkuldann.  Ég sagði henni að hún gæti ekki verið í þessu í dag og ætlaði að klæða hana í buxur, þá rauk hún í fýlu inn í herbergið sitt með pilsið í fanginu, fór svo inn í sjóræningjatjald, sat þar reyndi að troða sér í pilsið og milli ekkasogana sagði hún „uhuhuhuuu pæja…uhuhu pæja…“.   Ég er semsagt vonda mamman sem leyfi dóttur minni ekki að vera pæja.

Saumaklúbburinn á föstudaginn gekk vel, það mættu tvær mömmur með samtals 4 börn þannig að það var mikið fjör á bænum og Sólveig í essinu sínu.   Stóra sjónvarpið vakti mikla lukku, sérstaklega hjá 4 ára strák sem sat stjarfur í baunasekknum og horfði á Samma brunavörð.

Helgin fór svo bara í rólegheit, ég var hálf raddlaus vegna hálsbólgu og var því með heimilisfólkið í silent treatment, við mikinn fögnuð.

Categories: Fréttir

Út með jólaköttinn……

 …því hann á ekki lögheimili hér…

Í dag fórum við Solla til Dr. Coo í þriðja skipti á þremur vikum. Við erum aldeilis að nýta okkur þennan lúxus að fá fría læknisþjónustu og lyf frá breska ríkinu. Kerfið virkar þannig að börn fá læknisþjónustu og lyf frítt og fullorðnir fá læknisþjónustu fría en þurfa að borga 6 pund fyrir lyf, sama hvaða lyf það eru. Núna er Solla með „chest-infection“ og komin á pensilín. Við erum þess vegna búnar að vera inni alla vikuna og munum sennilega halda því áfram um helgina.

Á morgun er ég með „saumaklúbb“, þannig að í dag er ég að húsmæðrast út í eitt. Bakaði hollustu-muffins áðan, ég er að fá skandinavíska hópinn á morgun og þær eru svo heilsusinnaðar að það þýðir ekkert að bjóða upp á marens eða annað gúmmelaði á íslenska vísu.

Svo erum við farin að huga að jólunum, tók mig til í gær og kom öllum jólalögunum mínum á stafrænt form og keypti eitthvað af jólatónlist á tonlist.is. Er núna með safn 70 jólalaga og við Solla skemmtum okkur konunglega yfir smellum á borð við „út með jólaköttinn“ og „sýndu okkur í pokann“. Svo erum við að horfa á jólaþáttinn með Latabæ og Solla gerir margar tilraunir til að segja „christmas“ við hvert áhorf, þetta er allt að koma hjá henni.  Mjög gaman að fylgjast með henni prófa sig áfram í enskunni.  Á þriðjudaginn fór hún ekki í leikskólann og ég sagði „ég þarf að hringja á leikskólann og láta vita“ og hún endurtók stöðugt „mamma hringja leisskoli“ þangað til ég var búin að hringja.   Um leið og ég lagði símtólið frá mér eftir að hafa hringt heyrðist í Sollu „Gúdd mooonning“, sem er einmitt það fyrsta sem sagt er á leikskólanum á daginn.

Categories: Fréttir

Heimferð

nóvember 20, 2007 1 comment

Þá erum við komin aftur heim í heiðardalinn eftir allt of stutt frí á Íslandi. Við mættum hérna um hádegisbilið í gær, krókloppin með kal eftir veðurfarið heima. Eins og sést á topp tíu listunum var helginni að mestu varið í að hitta ættingja og borða skyndibita.

Til að halda í hefðina náði Solla sér í einhverja pest á Íslandi og er núna með hósta og hita. Vinsælustu orðin í gær og í dag eru „nei, ekki“ og „nei, vittilikki“ (vil ekki). Hún er semsagt ekki mjög samvinnuþýð, kallast mótþróaskeið í uppeldisfræðunum. Hún skemmti sér annars vel á Íslandi, þrátt fyrir að hafa verið inni nánast alla helgina. Fyrir helgina fékk hún allavega að fara í morgunverð á Prikinu með „köllunum“, pössun hjá Möggu og Sússí og fleira skemmtilegt.

Við birgðum okkur svo upp af matvöru áður en við héldum af landi brott. Við ættum allavega að geta bakað sörur og skolað þeim niður með malti og appelsíni.

Skýringin á því að Tollverðir á Miðnesheiði eru á báðum topp tíu listunum er þessi: Þeir eru heitir af því þeir létu okkur í friði (í fyrsta sinn ever), þegar við rúlluðum í gegnum tollin hlaðin vélbúnaði. Þeir eru kaldir af því að þegar við rúlluðum í gegnum tollinn voru þeir uppteknir við að grandskoða allan farangur eina blökkumannsins í flugstöðinni.

Categories: Fréttir

Topp 10 Listar

nóvember 19, 2007 6 ummæli

Topp 10

Kalt

 1. Okur (4350 fyrir 1 x 16″ og 1 x 12″ Pizzu og 2 Lítra af sódavatni)
 2. Stress og geðveiki
 3. Tollarar á miðnesheiðinni
 4. Seinkun flugfélaga
 5. Kuldi og trekkur (-3 og hundrað metrar á sekúndu í miðborg óttans)
 6. Græðgi
 7. Vond þjónusta (Ruby Tuesday langsamlega bestir í þessu)
 8. Range Rover Jeppar
 9. Jakkalakkar í hópferðum með græðgisglampa á uppáhaldsmorgunverðarstaðnum mínum
 10. Allir sem eru að reyna að vera öðruvísi og eru svo bara allir eins.

Heitt

 1. Sólveig Ósk
 2. Frænkur litlar og stórar.
 3. Ömmur og afar, langömmur og langafar.
 4. Cambourne
 5. Hamborgarabúllur, Grillhús
 6. Óþekkir frændur af öllum stærðum og gerðum.
 7. Land Cruiser jeppar.
 8. Videóleigan á Amazon
 9. Tollarar á miðnesheiðinni.
 10. Brúðubíllinn
Categories: Fréttir

Enn og aftur helgarskýrsla

nóvember 12, 2007 1 comment

Dagarnir fljúga áfram hjá okkur, um miðjan október ákváðum við að kíkja heim í helgarferð um miðjan nóvember og ég hugsaði „já frábært, þá get ég verið búin að kaupa allar jólagjafir og skilið þær eftir þá“, svo bara „simmsalabimm“  allt í einu er ég að koma heim á fimmtudaginn og sé mig ekki í anda ná þessu fyrir þann tíma.  Kannski verð ég ofurhetja næstu tvo daga og massa þetta (koma svo…).

Björg kom á laugardaginn og er búið að vera mjög gaman, byrjuðum á því að sýna henni Cambridge á laugardaginn.   Þar var fjöldi manns, vegna þess að það er nýbúið að opna stóra John Lewis búð í miðbænum og svo voru líka H & M og Zara að opna stórverslanir, þannig að allir voru að skoða.  Einnig mættum við töluvert af Íslendingum, held að PWC hafi verið með árshátíðina sína í Cambridge um helgina.    Í gær var svo ákveðið að fara í massíva verslunarferð, þannig að við fórum til Milton Keynes í MK-Centre.   Það voru greinilega fleiri sem fengu þessa frábæru hugmynd, mikill fjöldi á svæðinu og mikil jólastemmning.    Eftir að við fluttum til Bretlands hættum við alveg að hneykslast á því að Kringlan og Smáralind skreyti of snemma.  Hér settu búðirnar upp „jóladeildir“ í september og meira að segja voru jóladagatölin komin í flestar matvöruverslanir þá.  Skil ekki af hverju ég er ekki löngu búin að jólagjafakaupum með allt þetta jólaáreiti.  :o

Sólveig er í miklu stuði þessa dagana, dansar og syngur.  Hún er reyndar mjög kvefuð þessa dagana, þannig að við ætlum að reyna að vera sem mest inni fram að Íslandsför.  Í dag verður því bara litað, leirað, tekið til og kíkt til læknis.  Ég keypti á hana Dora The Explorer nærbuxur í MK og núna erum við að reyna bleijuleysi.  Hún er mjög stolt af nýju buxunum og vill helst vera bara á nærbuxum og peysu í dag.    Ef hún er í buxum er hún alltaf að draga þær niður, benda á nærbuxurnar og segja „þetta Doru nattananabuxur“.

Categories: Fréttir

Hitt og þetta

nóvember 7, 2007 2 ummæli

Við erum aldeilis ekki búin að vera dugleg að blogga undanfarið, búið að vera nóg að gera.   Hildur og Þórður komu á miðvikudaginn og fóru á mánudaginn, þau komu færandi hendi með lifrarpylsu, rúgbrauð og Barbapapa bók.   Sólveig var eins og hún hefði unnið í Lottóinu þegar hún sá lifrarpylsuna, þannig að í hvert sinn sem ég opna ísskápinn þessa dagana er beðið um „hlátur“ og „útlandabrauð“ (veit ekki hvaðan það orð kom, en það er s.s. rúgbrauð).    Lífið gengur annars sinn vanagang, þessa vikuna er búið að fara í dans, söng, leikskóla og gengur það allt alveg glimrandi vel.   Solla virðist vera farin að skilja enskuna betur og betur, í síðasta danstíma var hún allavega mjög aktív og fylgdi leiðbeiningum mjög vel. Af öðrum vígstöðvum er það helst að frétta að ég er útskrifuð úr ökuskóla Bergljótar Þ.  Er búin að keyra tvisvar inn í miðbæ Cambridge, seinna skiptið meira að segja í 9 umferðinni um morgun.  Nú á ég bara hraðbrautirnar eftir, en er ekkert á leiðinni að keyra þær á næstunni, held ég. 

Categories: Fréttir
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.