Sarpur

Archive for janúar, 2008

Breska skrifræðið

janúar 25, 2008 9 ummæli

Green card

Þegar Óskari bauðst starf í Bretlandi var hann beðinn um að byrja innan 2ja vikna frá dagsetningu atvinnuviðtalsins. Þegar hann mætti svo til starfa var tekið á móti honum með rauðum dregli og búið að fá national insurance number fyrir hann.

Í dag komst ég að því að það er greinilega munur á Jóni og Síra Jóni. Þar sem ég er núna í atvinnuleit benti ein ráðningarstofan mér á að ég ætti kannski að sækja um svoleiðis númer, það væri betra að vera komin með svoleiðis áður en ég fer að vinna einhvers staðar. Ég trítlaði því í dag á stað sem heitir „Job center plus“ og hélt ég gæti fyllt út umsókn þar og skilað henni inn samdægurs. Það var að sjálfsögðu ekki svo auðvelt, í móttökunni mætti mér maður sem rétti mér bækling og benti á símanúmer í honum og sagði „þú þarft fyrst að hringja í þetta númer og panta viðtal“, umsóknin er s.s. viðtal þar sem ég geri grein fyrir því í hvaða devious tilgangi ég er komin til Bretaveldis.

Ég fór því heim og hringdi í þetta númer, talaði við konu sem tilkynnti mér að ég „ætti að mæta 13. febrúar klukkan 10:30″ og ekki séns að mótmæla því neitt eða breyta um tíma. Þetta er væntanlega eini tíminn á árinu sem drottningin er laus.Svo taldi hún upp það sem ég ætti að koma með í viðtalið. Efst á lista var vegabréfið mitt, sem segir sig svosem sjálft. Næst á listanum er sönnun á því að ég sé raunverulega í atvinnuleit, ætti að vera auðvelt að redda því. Því næst spurði konan „Hvenær komstu til Bretlands?“ og ég svaraði „20. september“ og hún spurði „Hefurðu komið til Bretlands fyrir þá dagsetningu?“ og ég svaraði eins og var að ég hefði komið til landsins nokkuð oft s.l. 17 ár og hún tjáði mér þá að ég ætti að gefa þeim upp dagsetningu á hverri einustu ferð minni til Bretlands. Jaaaaaaá, ég man einmitt dagsetningarnar frá því að ég var hér í enskuskóla sumarið 1990. Það er varla að ég hafi tölu á hversu oft ég hef komið til Englands. Svo á ég að sýna leigusamning, ég sagði henni að nafnið mitt væri ekki á honum en ég væri með giftingarvottorð sem sýnir tengsl mín við Óskar sem er skráður fyrir húsinu. Það er ekki alveg nóg, heldur auk giftingarvottorðs á Óskar að útbúa bréf sem segir að hann sem eiginmaður minn leigi hús í Cambourne og leyfir mér náðarsamlegast að búa með sér í því húsi. Það er greinilega ekki sjálfgefið að leyfa eiginkonunni að búa hjá sér.

Ég hlakka mikið til þessa viðtals, sé fyrir mér að þetta verði svipað og í kvikmyndinni „Green card“ og ég verði spurð að því hvaða næturkrem Óskar notar og þ.h. Ég skal allavega hundur heita ef ég verð ekki send til baka úr viðtalinu þar sem einhverjar mikilvægar upplýsingar vantar.

Categories: Fréttir

Flott stelpa

janúar 24, 2008 1 comment

Á leið á leikskólann með fína hárgreiðslu. 

fin og flottCategories: Fréttir

Veðurblíða

janúar 23, 2008 2 ummæli

Það er ekki oft sem hægt er að vera úti á stuttbuxum í janúar.    utiVeðrið var reyndar ekki alveg svona gott, Sólveig stalst út á „fótboltastelpu“ búningnum sínum. 

Categories: Fréttir

Screw RÚV

Þessi fyrirsögn rímar svo fínt að það er ekki hægt að sleppa henni.  Ég, frúin á heimilinu, var búin að koma mér vel fyrir í stofunni í íslenska landsliðsbúningnum, með snakk í skál og bjór í hönd.  Planið var að horfa á „strákana okkar“, en nei nei, þá segir hinn elskulegi vefur http://www.ruv.is:  „Landsleikir frá EM í handbolta eru aðeins aðgengilegir innanlands vegna réttindamála á útsendingum.“  hrmpf!

Categories: Fréttir

Fótboltastelpa með músarhjarta

Samkvæmt tímatali Sólveigar er sumarið komið hjá okkur, hún uppgötvaði nýlega að öll sumarfötin hennar eru neðst í fataskápnum og ef hún er ein í herberginu sínu endar það oft með því að hún skiptir um föt. Um daginn kom hún til mín, berrössuð í hlírabol og fannst hún alveg rosalega fín. Þá tóku við samningaviðræður sem enduðu með því að ég bauð henni að fara í „fótboltastelpubúning“ og hún þáði það. Ég klæddi hana þá í stuttbuxur, síðerma bol og háa sokka og hún var alveg alsæl, hljóp hér um húsið og sparkaði í svamp-fótboltann sinn. Þegar hún var búin að leika sér í smá stund með boltann bað hún mig að koma og sparka með sér. Ég stóð upp og ætlaði að sparka í boltann, en var stoppuð af samstundis. „Nei, mamma, fara í búning“. Gallabuxur og bolur eru sumsé ekki löglegur knattspyrnubúningur skv. knattspyrnusambandi hússins. Þannig að ég fékk ekki að spila fótbolta þann daginn.

hryllingsmynd

Í gærkvöldi fór ég á foreldrafund á leikskólanum og feðginin voru ein heima. Það er ekki oft sem þau eru tvö ein, þannig að Óskar ákvað að hafa „bíó“, með poppi og tilheyrandi. Þegar ég fór var poppið tilbúið og verið að velja mynd til að horfa á. Ákveðið var að horfa á Stuart Little. Myndin fjallar um músarstrák sem er ættleiddur af fjölskyldu í New York. Í byrjun myndar er köttur fjölskyldunnar eitthvað ósáttur við komu músarinnar inn á heimilið og upphefst smá eltingarleikur. Við þetta setti Sólveig upp mikla skeifu og sagði titrandi röddu „maaammaaa“ og svo byrjuðu tárin að renna niður kinnarnar. Þegar Stuart litli lenti svo fyrir slysni í þvottavélinni, var Sólveigu allri lokið og fór bara að hágráta. Þetta var samt mjög saklaust atriði og Stuart var bjargað úr þvottavélinni mjög fljótt. Þannig að ákveðið var að hætta með bíósýninguna í bili. Hún vildi svo lítið ræða þessa lífsreynslu sína í morgun, sagði mér bara þrisvar að hún hefði fengið popp og aðrar spurningar „heyrði hún ekki“. Á morgun er svo planið að horfa saman á Poltergeist og Chucky III. :)

Það hljóp svo aldeilis á snærið hjá Sólveigu í gær þegar hún eignaðist nýjan sundbol. Bleikan með mynd af jarðarberi á maganum og blómum á hlýrunum. Við verðum væntanlega að gera okkur ferð í „sundlaufu“ fljótlega til að vígja gripinn.

Categories: Fréttir

Sólveigar-sögur

janúar 14, 2008 1 comment

Eftir að við fengum nýja ísskápinn með fína klakasysteminu er vatn með klökum vinsælasti drykkurinn með kvöldmatnum. Sólveig er hins vegar búin að ákveða að ísmoli heiti ísbíll, þannig að þegar við birtumst með klakana segir hún „Solla líka ísbíl!“ og svo hefjast rökræður þar sem foreldrarnir segja „ísmoli“ og Sólveig svarar „nei, ísbíll“. Hún er nú frekar þrjósk blessunin. Það verður gaman í sumar þegar „ísmolinn“ fer að aka um göturnar í bænum.

Við erum fyrir nokkru síðan búin að taka beislið og spýtuna úr matarstólnum hennar þannig að nú er hún alveg laus í honum og fer úr honum og í hann sjálf. Við matarborðið er hún hins vegar oft á iði, hálf upp á borði eða lafir einhvern vegin í stólnum.  Um daginn þegar iðið var svo mikið að hún datt úr stólnum niður á gólf, fór ég og sótti beislið og spýtuna og sagði henni að ef hún hætti ekki þessu iði þá yrði þetta sett aftur í stólinn.  Hún var nú alls ekki til í það, þannig að ég stillti þessu upp í stofunni sem „grýlu“. Svo fórum við Óskar í eldhúsið að elda og allt í einu varð allt hljótt í stofunni, ég kíkti fram og þá var hún að læðast með beislið og finna því góðan felustað. Kom því loks fyrir undir blaði á einum borðstofustólnum.

Eina nóttina var Sólveig komin upp í til okkar og svaf vært, ég fór fram á klósett og þegar ég kom aftur upp í rúm, sneri hún sér að mér, tók í kinnarnar á mér og muldraði „krúttíbolla“ og hélt svo áfram að sofa.

Sólveig er að borða kiwi, því fylgir smá subbuskapur og hún tekur eftir taumi af kiwisafa á handleggnum á sér. Réttir upp handlegginn og segir „mamma, sleikja!“. (jú, hún veit hvað tissue er).

Sólveig er að horfa á prúðuleikarana, þar er atriði þar sem tvær brúður úr einhvers konar rörum eru að dansa. Ég kem inn og spyr „Hvað eru þessir að syngja?“ og hún svarar án umhugsunar „Ryksugan á fullu“. (Brúðurnar litu út eins og ryksugubarkar, þaðan er væntanlega tengingin).

Categories: Fréttir

Pizzugerðarkona

janúar 13, 2008 1 comment

Hér fórum við eldsnemma á fætur og dunduðum okkur aðeins heima fyrir. Ákváðum við að skella okkur fyrir hádegi í stórmarkað til að versla inn fyrir vikuna, það mátti sjá allskyns gylliboð á þvottavélum og ryksugum í búðinni, við létum ekki glepjast. Þegar heim var komið tókum við okkur til og hnoðuðum pizzadeig. Ung stúlka var afar áhugasöm við baksturinn og það sem foreldrunum þótti ekki verra var að hún var duglegri að borða mat sem hún hafði útbúið sjálf. En mynd segir meira en þúsund orð.

Sollupizza

Categories: Uncategorized
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.