Archive

Archive for febrúar, 2008

Stína símalína

febrúar 25, 2008 3 ummæli

Stína Símalína

Það á ekki af okkur að ganga þessa dagana. Í gærkvöldi urðum við sambandslaus við umheiminn uppúr kl. 22:30. Ég hélt það væri komin einhver stórrigning sem getur orsakað það að brunnarnir fyllist af vatni. Þá eru þeir bara lagaðir næsta dag og tjónið ekki mikið fyrir mig eða British Telecom en í gærkveldi vildi ekki betur til en svo að bíræfnir þjófar voru á ferð og stálu símalínunum. Það hefur verið töluvert um svona þjófnaði í sýslunni s.l. mánuði. Þeir tóku lítið þorp alveg úr sambandi c.a. 1600 símalínur, lögreglan lítur þessi mál alvarlegum augum og þegar við komum heim í dag mátti líta 15-20 lögreglumenn að borða sykursnúða fyrir utan Morrisons. Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því að koparinn er farinn veg allrar veraldar. Væri nær að standa vörð í öðru þorpi og vonast til þess að koma höndum yfir þessa þrjóta þar. Þeir láta varla sjá sig hér víst þeir eru búnir að ræna koparbirgðum bæjarbúa. Ætli þeir fari ekki næst í raflínurnar ? En einhverjir verndarenglar voru samt á vappi í dag. Aðstoðarkona forstjórans kom með nýtt 3G módem handa mér með ótakmörkuðu niðurhali innan LB (litla bretlands). Þannig að við getum alltént komist í tölvupóst og sent svona skemmtilega pistla. *uppfært tók tengil í burtu, fréttinni hafði verið stolið. Óskar 

Categories: Uncategorized

We’re not in Kansas anymore….

febrúar 24, 2008 1 comment

Sagði Dorothy forðum daga, og þessi orð eiga vel við þessa dagana.

Stóra leikskólamálið er að verða að einhverri mestu sápuóperu sem við höfum upplifað. Á laugardagsmorguninn kom bréf frá leikskólanum þar sem þeir útskýra af hverju honum var lokað svona í skyndi. Það eru víst reglur um það að áður en manneskja hefur störf þar þá þarf að hafa samband við tvo meðmælendur. Í fyrra var manneskja ráðin til leikskólans og hún var látin hefja störf áður en haft hafði verið samband við meðmælendur hennar. Þetta hefði að öllum líkindum ekki komist upp ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að umræddur starfsmaður var blaðamaður frá BBC í „undercover“ vinnu. Fyrirtækið sem rak leikskólann fékk símtal fyrir stuttu frá BBC þar sem þeim var sagt frá þessu og jafnframt tilkynnt að þann 5. mars yrði þáttur á BBC um þennan leikskóla og sögu hans. Saga hans er mörkuð af einum stórum atburði, í apríl 2006 var 10 mánaða stelpa þar sem dó þegar eplabiti stóð í henni. Allar rannsóknir hafa samt komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið hægt að kenna starfsfólki um þann atburð. Við munum allavega sitja spennt við skjáinn að kveldi 5. mars og sjá hvaða hættu við settum Sólveigu í.

Það er ekki hægt að segja annað en að hún hafi elskað leikskólann sinn þrátt fyrir allt. Fréttin um lokunina var að sjálfsögðu á forsíðu bæjarblaðsins og þegar Solla sá blaðið hrópaði hún alveg „Þett’er leikskólinn minn“, daginn eftir vildi hún svo hafa blaðið fyrir framan sig á meðan hún borðaði morgunmatinn og skoða myndina af skólanum. Þegar við keyrum inn og út úr bænum hrópar hún alltaf „leikskólinn!!“ þegar við förum þar framhjá.

Höfum annars átt fína helgi. Keyrt um nágrannasveitarfélögin og skoðað hvort við gætum hugsað okkur að búa í einhverju þeirra. Höfum ekki komist að niðurstöðu með það.

Categories: Fréttir

Sögustund

febrúar 24, 2008 1 comment

Sólveig segir sögu.

Svo byrjaði hún að segja aðra sögu, en fannst svo meira fjör í því að ráðast á kvikmyndatökumanninn. Tékk’it.

Categories: Uncategorized

Vikan að verða búin

febrúar 22, 2008 3 ummæli

Ja hérna hér, þessi vika hefur flogið áfram á ljóshraða, föstudagur kominn og svo verður kærkomin hvíld um helgina.  Vikan hefur sumsé verið ansi viðburðarík hjá okkur. Á mánudaginn var fyrsti dagurinn þar sem við Óskar vorum bæði í fullu starfi og Solla í heils dags dagvistun.  Óskar fór með hana um níuleytið og ég sótti hana um hálf fimm.   Þetta gekk allt bara mjög vel, Solla alsæl í leikskólanum og sniðugt að við gátum skipt þessu svona á milli okkar.

Á þriðjudagsmorguninn hringdi Óskar í vinnuna til mín og sagðist vera með slæmar fréttir.  Þegar hann fór með Sollu í leikskólann þann morguninn var honum afhent bréf og í því stóð eitthvað á þessa leið:  „kæru foreldrar, vegna manneklu og annarra leiðindaatvika verður leikskólanum lokað um mánaðarmótin“.   Við erum vægast sagt ekki ánægð með þetta, mjög undarlegt að fá samþykkta heilsdagsvistun á fimmtudegi og fá svo bréf um lokun á þriðjudeginum á eftir.  Við erum því búin að vera í leit að nýjum leikskóla og fórum í dag að skoða tvo sem eru í nágrenni við vinnuna hans Óskars.  Leist vel á þá báða og um helgina verður lagst undir feld og málið hugsað.  Við erum líka farin að íhuga hvort við eigum þá að flytja í apríl þegar leigusamningurinn okkar rennur út.  

Ekki það að við séum ekki ánægð í Cambourne, en þegar við þurfum öll að leita út fyrir bæinn í vinnu og skóla, þá er kannski ekki mikil ástæða til að vera hér.   Það þarf allavega að skoða málið frá öllum hliðum, aldeilis skemmtileg helgi framundan hjá okkur.
House Hunting

Categories: Fréttir

Ha ha :)

febrúar 20, 2008 5 ummæli

Dear Berglgog,               

Thank you for your enquiry…….

Svona er ad bua i utlondum  :D

Categories: Fréttir

Working gal

febrúar 16, 2008 6 ummæli

Nú er ég búin að vinna í 2 daga og hefur bara gengið vel.  Ég fer að heiman hálf átta á morgnanna og ef ég er heppin er ég komin heim hálf-fimm.   Þannig að Solla er þá „bara“ á leikskólanum frá 9 – 4:30, en við höfum víst öll gott af þessu.

Vinnan er annars fín, kom mér svolítið á óvart hvað þessi skrifstofa er svakalega aftarlega á merinni með upplýsingatæknimál.  Ég hugsa að merin sé hreinlega bara farin eitthvað annað og þeir dottnir af baki. Lánasjóðurinn er eins og eitthvað framtíðargeimskip miðað við þetta.   Ég átti ekki von á að sakna Lotus Notes, en hann myndi henta fullkomlega þarna.

Annars erum við bara í góðum málum, ég endurnýjaði kynnin við bandarísku „systur“ mína um daginn í gegnum facebook.  Það var skemmtilegt, hef ekki heyrt frá henni í 12 ár og greinilega margt gerst í millitíðinni hjá okkur báðum.  Ég sá að ég er engan veginn að standa mig í söfnun facebook-vina, hún er með 175 vini og ég 21, þannig að nú mega allir lesendur/facebooknotendur adda mér sem vini.  Koma svo!!   

Óskar kom með alveg svakalegt magn af saltlakkrís og piparbrjóstsykri handa okkur frá Svíþjóð þannig að við (og þá aðallega ég) höfum legið hér í saltmóki, þetta er alveg svakalega gott.  Nú vantar bara kíló af kúlusúkki og þá er lífið fullkomið :) .

Categories: Fréttir

Heimþrá

febrúar 14, 2008 4 ummæli

Ég hef ekki fundið fyrir heimþrá allt þetta ár sem ég hef verið hérna. Í fyrsta skipti á ævinni hef ég fundið fyrir einhversskonar heimþrá. Veit ekki hvað veldur en það er blanda af hinu og þessu. Pétur á einhverja sök á þessu, sjá mynd hér að neðan. Það er einhver dulúð yfir snjókomu á ljósum í Breiðholtinu.

Einnig komu til ákveðnir þættir í Gautaborgar heimsókninni. Maturinn í Svíþjóð var rosalega góður minnti mig á djöflaeyjuna. Það eru til sjoppur í Svíþjóð það er hægt að labba út á horn og kaupa Drakúla brjóstsykur og saltfiska.

Það var magnað að hitta Sólveigu á leikskólanum eftir að hafa verið að heiman í þrjá daga. Hún stökk á fætur og hljóp mig næstum því um koll svo ánægð var hún að endurheimta mig frá Svíþjóð.

Breiðholtsbúgí

Categories: Fréttir
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.