Sarpur

Archive for september, 2008

Mánudagur dauðans

september 30, 2008 9 ummæli

Við Solla erum lentar aftur á Bretlandseyjum eftir æðislega helgi í Svíþjóð.  Ferðasagan kemur síðar.  Í gær var mánudagur eins og þeir gerast bestir.  Byrjaði á því að við mæðgur vöknuðum klukkan 7 og fórum að hafa okkur til í rólegheitum.  Ég ákvað að vera mjög sniðug mamma og leyfa Sollu að borða morgunmatinn í herberginu sínu, sem er oft mikið sport.  Hún samþykkti það af sjálfsögðu og ég hélt bara áfram að hafa mig til og leyfði henni að vera einni inni í herbergi.  Eftir nokkra stund var orðið grunsamlega hljótt inni hjá henni þannig að ég fór og kíkti á hana.   Þá sat hún á stól, búin að leggja á borð fyrir 4 dúkkur og skipta Weetabixinu sínu jafnt á milli allra á diskana í dúkkustellinu sínu.  Sjálf var hún með bangsa í fanginu og var að reyna að troða Weetabixi upp í samansaumaðan munninn á honum.

Eftir að hafa tekið til eftir morgunverðarhlaðborðið var kominn tími til að koma sér í vinnu og leikskóla.  Ég kom okkur fyrir í bílinn, en hann reyndist alveg dauður.  Rafgeymirinn tómur.  Þannig að aftur út úr bílnum og nú þurfti að finna einhver ráð, við vorum mjög heppnar að það var leigubíll parkeraður aðeins neðar í götunni og ég bankaði hjá honum og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig eitthvað.   Hann gat ekki hjálpað mér með start en hafði smá tíma til að koma okkur í leikskóla og vinnu, þannig að ég þáði það.  Hann reyndist svo vera afi eins stráksins á leikskólanum hennar Sollu.

Í vinnunni var ég nýbúin að koma mér fyrir þegar einn af yfirmönnum mínum gekk inn á skrifstofuna okkar og bað vinnufélaga minn að bera stólinn sinn út í bíl (hann er lítillega fatlaður og notar sérstakan stól).   Klukkutíma síðar kom svo tölvupóstur sem tilkynnti okkur það að hann væri hættur.  Mjög undarlegt allt saman og skrýtið að segja okkur þetta bara með tölvupósti frá manneskju sem situr nokkra metra frá okkur.

Eftir vinnu hringdi ég svo á leigubíl til að koma okkur aftur heim og komst þá að því að leigubílar á Íslandi og Englandi eru tvennt ólíkt.  Ég þurfti að reyna mörg númer þar til einhver leigubílstjórinn gat veitt mér þá súperþjónustu að koma innan hálftíma.  Hann keyrði mig á leikskólann og á leiðinni spurði ég hvort hann vissi um einhvern sem gæti komið og gefið mér start.  Hann brást náttúrulega við eins og allir aðrir sem ég hafði spurt um daginn, eins og ég hefði beðið hann um að kljúfa atómið og finna upp hjólið.   En hann gat þó eins og allir aðrir sagt mér hvar ég gæti keypt nýjan rafgeymi.  Bifvélavirkjahæfileikar mínir eru bara ekki það miklir að það gagnaðist mér nokkuð, hefði reyndar getað „Jón Pál“-að bílinn með kaðli á næsta sölustað rafgeyma og beðið einhverna að setja rafgeyminn í.

Við Solla löbbuðum svo heim af leikskólanum, hún í góðu skapi og mjög skemmtileg.   Hafði átt frábæran leikskóladag, talað helling, sungið og dansað.  Starfsfólkið var vægast sagt ánægt með hana.   Þegar heim var komið breyttist þessi æðislega stelpa í lítinn umskipting sem grét og þurfti mikla athygli.  Gráturinn var nær stanslaus þar til hún fór að sofa, alveg búin á því eftir helgina og leikskóladaginn.  Ég var sjálf alveg búin á því og sofnaði upp úr 10, eftir að hafa pirrað mig upp úr skónum yfir One Tree Hill, af hverju ég held samt alltaf að horfa á þessa hörmung er mér hulin ráðgáta.

Í morgun hélt ævintýrið áfram, byrjaði reyndar klukkan tvö í nótt þegar Solla tilkynnti mér að hún hefði pissað í rúmið.   Ég þreif það allt og við sváfum svo áfram til 7, þá fór ég á fætur og byrjaði að reyna að hringja á leigubíl, þar sem okkar bíll var enn dauður.   Þar sem morguntraffíkin er mikil var besta tilboðið sem ég fékk um far klukkan 10:30!!!  Þannig að það var ekki um annað að ræða en að smella sér í Fegrunarnefndargírinn og taka fram hjólið.  Hjólaði á leikskólann og í vinnuna mína og mætti eiturhress klukkan hálf níu.  Mjög hressandi, en þar sem spáin er frekar slæm næstu dagana vona ég að ég nái að redda bílnum í kvöld.  Er búin að fjárfesta í startköplum og á von á leigubílstjóra hingað í kvöld sem aumkvaði sig yfir mig.  Vona bara að hann láti sjá sig.

Categories: Fréttir

Enn ein vikan liðin

september 21, 2008 1 comment

Tíminn hefur liðið alveg ótrúlega hratt undanfarnar vikur.   Ég er núna búin að vera að vinna í 3 vikur og líkar bara mjög vel.  Mórallinn er góður á skrifstofunni og alltaf nóg að gera, sem er mikill kostur því þá líða dagarnir mjög hratt.   Starfið er s.s. í fjármáladeild þessa fyrirtækis hér og ég er aðallega að innheimta og taka við greiðslum.  Mikil samskipti við fólk og fyrirtæki.  Ég er orðin mjög æfð í að stafa nafnið mitt, tölvumaðurinn okkar hafði þó samúð með mér þegar hann setti mig upp í tölvukerfinu, eftir að hann hafði þurft að skrifa nafnið mitt í öll kerfin sem við notum sagði hann „ég er búinn að læra að skrifa eftirnafnið þitt, en ég ætla að leyfa þér að hafa netfangið beggo.thor@…., svo þú þurfir ekki að eyða heilu dögunum í að stafa nafnið þitt ofan í fólk“.

Næsta fimmtudag ætlum við Solla til Stokkhólms að heimsækja Óskar.  Við erum öll mjög spennt, ætlum í Grönalund og á Skansinn.  Svo munum við sporðrenna nokkrum kókosbollum og sænskum kjötbollum.

Það er búið að vera æðislegt veður hjá okkur þessa vikuna, sól og um 20 stiga hiti.  Af því tilefni fékk Solla að busla aðeins í garðinum í gær og eru komnar myndir af þeirri dýrð í albúmið.

Categories: Fréttir

Breskt sjónvarpsefni

september 21, 2008 5 ummæli

Þar sem ég er hálfgerð sjómannsfrú hér í Englandi fara flest kvöld í það að horfa á einhverja af þeim fjölmörgu sjónvarpsstöðvum sem við höfum aðgang að.   Það er nóg í boði og er sérstaklega gaman að horfa á raunveruleikasjónvarp og heimildarmyndir.

Einn af raunveruleikaþáttunum sem ég horfi á heitir „Don´t tell the bride“.  Þetta er hálfgerður „Brúðkaupsþátturinn Já“ , sem gengur út á það að pör fá 12.000 pund til að halda draumabrúðkaupið sitt, eina skilyrðið er að brúðguminn á að skipuleggja allt einn á þremur vikum.  Meira að segja að velja kjólinn.  Pörin mega ekkert hittast á þessu þriggja vikna tímabili.  Þetta er oft mjög skrautlegt og ótrúlegt hvað brúðgumanum finnst oftast mikilvægast.  Í síðasta þætti voru vinir brúðgumans nánast búnir að selja honum þá hugmynd að steggjapartýið yrði haldið yfir helgi í New York, fyrir 900 pund á meðan gæsapartýið átti bara að vera á lókal pöbbnum fyrir 150 pund.   Þeir enduðu reyndar á helgi í Amsterdam og gæsirnar á lókal pöbbnum.  Brúðurin í þessum þætti var með mjög fastmótaðar hugmyndir um kjólinn, þannig að hún endaði grátandi á brúðarkjólaleigunni þegar hún mátaði kjólinn sem maðurinn valdi.  Mjög gaman.

Svo eru alls konar heimildaþættir, t.d. kom ég mér einu sinni vel fyrir þar sem ég taldi að Brothers and Sisters væri á dagskránni.  Mér til mikillar skelfingar reyndist þátturinn hins vegar heita „Brothers and sisters in love“ og var eitthvað allt annað en ég ætlaði og vildi sjá.  Fæ ennþá hálfgerðan hroll.   Raunveruleikaþættirnir hér eru þannig að mér líst ekkert á að Solla mín verði breskur unglingur.  Það er því nokkuð ljóst að við verðum að búa einhvers staðar annars staðar eftir 10 ára aldurinn.

Categories: Fréttir

Afmæli

september 14, 2008 3 ummæli

Í gær fórum við Solla í afmæli hjá Sam, leikskólasystur hennar.   Sam átti 4 ára afmæli og bauð í veislu heima hjá sér.   Ég vissi ekkert hvað við vorum að fara út í þannig að ég var búin að plana að stoppa bara stutt.  Þegar við renndum í hlað stóð kona fyrir utan húsið, mjög Southampton-ísk, þ.e. á hlírabol og með risa stór tattoo á sitt hvoru brjóstinu og nokkur á handleggjunum líka.  Þetta reyndist vera mamman á heimilinu,  hún bauð okkur inn og kallaði á Sam, sem kom hlaupandi alsæl og hrópaði „Solla, Solla, Solla!!“ og þær vinkonurnar föðmuðust og hlupu svo saman inn í stofu.   Á leið minni inn í stofu kom ég við í eldhúsinu, þar sem var mikið fjör, bjór og vín á boðstólnum.  Ekki alveg það sem maður á að venjast í 4 ára afmælum, en það var allavega ekkert fyllerí.

Í stofudyrunum stóð mjög skrautlegur maður, miðaldra í mynstraðri pókerskyrtu og vesti yfir.  Hann kynnti sig og rétti mér nafnspjaldið sitt.  Þetta reyndist vera töframaðurinn á staðnum.  Í stofunni var svo diskótónlist á hæsta styrk, varpi sem varpaði laser-myndum á vegginn og litlar stelpur í mjaðmabuxum að dansa.   Mamma hennar Sam kynnti mig fyrir annarri leikskólamömmu sem var mætt á svæðið og sú var með dóttur sína dauðskelkaða í fanginu.   Solla var furðu brött miðað við aðstæður og fór bara að leika sér með blöðrur og hjálpa Sam að opna pakkana.

Þær voru þrjár af leikskólanum sem var boðið í afmælið og við foreldrar þeirra virtumst öll vera hálf utangátta í afmælinu.  Solla virtist reyndar skemmta sér mjög vel en hinar tvær af leikskólanum voru alveg límdar við foreldra sína.  Aðrir gestir voru ættingjar og vinir foreldranna og svipaðar týpur og mamman.  Það var t.d. alger óþarfi að spyrja konurnar hvaða börn þær ættu, því þær voru með nöfnin þeirra tattúveruð á hina ýmsu staði á líkama sínum, og þeir staðir voru allir sjáanlegir. Hlírabolir og joggingbuxur eða mjög stutt pils voru ríkjandi í klæðaburði.

Töframaðurinn hélt svo uppi stuðinu næstu 3 tímana, með smá hléi til að dansa og gæða sér á veitingunum.  Hann var reyndar mjög góður og náði athygli krakkanna mjög vel.  Ég hafði sérstaklega gaman að því hvað Solla virtist skilja hann vel og fylgja skipunum, þar sem hann lét þau veifa, klappa og ýmislegt fleira.  Eftir hléið kom hann svo með kanínu og vakti hún að sjálfsögðu mjög mikla lukku.   Partýið endaði svo með heilmiklu diskói þar sem töframaðurinn bjó til alls konar dýr úr blöðrum og gekk á milli krakkanna og veitti þeim „verðlaun“ fyrir að vera dugleg að dansa.  Við vorum svo leystar út með gjöfum og fullt af blöðrum og komum alveg klyfjaðar heim.   Solla skemmti sér alveg konunglega og var alveg alsæl að afmælinu loknu.

Í dag fór ég ein í bæinn og missti mig í búðum.  Það gerist aldrei þannig að þetta var mikið afrek.  Seinnipartinn fórum við svo í heimsókn til Barry og Luciu og við enduðum öll úti á róló að leika okkur.  Stórir og smáir skemmtu sér konunglega, enda breskir rólóar mjög skemmtilegir.

Categories: Fréttir

Vinsælasti pabbinn

september 13, 2008 2 ummæli

Síðustu helgi var Óskar heima frá fimmtudagskvöldi fram á miðvikudagskvöld. Hann hefur ekki verið svona lengi samfellt heima síðan í júní, þannig að Solla var vægast sagt hamingjusöm með þetta. Pabbi átti gersamlega að gera allt, mér var tilkynnt að ég mætti ekki fara með hana á leikskólann, mátti ekki hjálpa henni á klósettinu og helst ekki leika neitt með þeim. Hann kom svo aftur heim í gærkvöldi og þegar Solla vaknaði klukkan 6:30 í morgun voru háværar kröfur um að pabbi kæmi með henni niður en ekki mamma. Á endanum sættist hún þó á að pabbi mætti sofa aðeins lengur í þetta sinn.

Vinnan gengur mjög vel, ég var kölluð inn á skrifstofu yfirmannsins á fimmtudaginn og boðið starfið. Ég hef s.l. tvær vikur bara verið til reynslu á vegum temp-agency (sem ég kann ekki að þýða á íslensku, greinilega búin að vera of lengi í útlandið). Reynslutíminn átti að vera mun lengri, en þar sem ég er apparently ofurmenni þurfti ekki meira til. Starfið er reyndar mjög auðvelt og ég þrælvön svona störfum, en þetta er ágætt fyrsta skref á breskum vinnumarkaði.

Í dag erum við að fara í afmæli hjá stelpu sem er með Sollu á leikskólanum.  Ég var á báðum áttum með að þiggja boðið, en ákvað á endanum að slá til.  Við þekkjum hvorki afmælisbarnið né foreldrana, fyrir utan Sollu auðvitað, hún talar stöðugt um þessa vinkonu sína þannig að við verðum að gefa þessu séns.

Categories: Fréttir

Nóg að gera

september 6, 2008 6 ummæli

Við höfum haft nóg að gera undanfarna daga.  Ég er byrjuð að vinna allan daginn, alla daga og eftir helgi fer Solla í leikskóla alla daga líka.  Ég á ekki von á öðru en það gangi vel þar sem hún virðist vera mjög ánægð með leikskólann sinn og talar mjög mikið um hann.

Vinnan mín er mjög fín, alveg brjálað að gera og ég var sett í það strax á öðrum degi að leysa aðra manneskju af ásamt því að gera mín verkefni.  Ég hef því mætt klukkan hálf níu á morgnanna, byrjað að vinna og þegar ég lít á klukkuna næst er hún orðin hálf fimm.  Sem er bara mjög fínt, gott að hafa nóg að gera.

Veðrið hefur verið frekar leiðinlegt undanfarna daga hjá okkur, mjög mikil rigning og frekar kalt.  Þessa helgina ætlum við því bara að taka því rólega innandyra.  Fórum reyndar í verslunartúr í Tesco í dag og fengum svo Barry og Luciu í mat í kvöld.

Síðustu helgi var reyndar alveg frábært veður og þá fórum við í Marwell Zoo, sem var eins og nafnið gefur til kynna alveg marvellous.  Myndir af því eru komnar í albúmið.

Categories: Fréttir
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.