Sarpur

Archive for nóvember, 2008

Myndir frá síðustu helgi

nóvember 29, 2008 1 comment

Stal nokkrum myndum frá Trausta og Elsu.

Íris og Solla í bænum.

Sólveig ekur strætóbíl

Kósíkvöld.

Categories: Fréttir

Gestagangur

nóvember 29, 2008 3 ummæli

S.l. viku hefur verið fullt hús hjá okkur.  Á föstudaginn fyrir viku renndu Elsa, Trausti og dætur í hlað hjá okkur rétt eftir miðnætti á risastórum, gulum kranabíl eftir að leigubíllinn þeirra hafði bilað á hraðbrautinni.  Það var aldeilis gaman að fá gesti og sérstaklega mikil tilbreyting fyrir Sollu að hafa tvö önnur börn í húsinu.  Hún lék sér vel við Ósk, jafnöldru sína og var mjög hrifin af Írisi, 1 árs.    Á laugardeginum fórum við öll í bæinn að skoða jólastemminguna, en á sunnudeginum fengum við Elsa að fara einar í bæinn með Írisi og þá var sko verslað.   Ég las í bæjarblaðinu að verslunarmiðstöðin ætli að reisa bronsstyttu af Elsu fyrir utan,  „customer of the century“.   Eftir helgina fór ég svo að vinna og Óskar sá um gestina.

Trausti og Elsa fóru svo um eittleytið á miðvikudaginn og klukkan þrjú komu svo afi Gústi og amma Hrönn.   Þannig að húsmóðirin Óskar fékk alveg tvo tíma til að sjæna húsið og þvo sængurver.    Gústi fór svo með að sækja Sollu á leikskólann og það var mjög mikið sport.  Hún var alveg á yfirsnúningi þegar þau sóttu mig svo í vinnuna.   Eitthvað fannst henni afinn vera orðin síðhærður, þannig að þegar við komum heim sótti hún fínu bleiku skærin sín og sagði „Cut your hair“ við afann :).  Solla fékk svo frí á leikskólanum það sem eftir var vikunnar og er búin að skemmta sér konunglega með afa og ömmu.   Þau fóru til Portsmouth á fimmtudaginn og voru svo heima að leika í gær og skoða nágrennið.   Solla hélt svo í hefðina og var komin með 39 stiga hita í gærkvöldi, þannig að helgin verður róleg hjá okkur.  Ég held að hugmyndin mín um að senda gesti í sóttkví til Isle of Wight í 6 vikur fyrir komu, sé back on the table.

Í gærkvöldi var svo stelpubíó á miðhæðinni hjá okkur, þegar við þrjár ég, Hrönn og Solla horfðum á Mamma Mía.  Mjög gaman.  Solla sat alveg stjörf yfir myndinni og sofnaði svo þegar um 10 mínútur voru eftir, þannig að ég á von á að við tvær munum gleðja Óskar með þessari mynd í framtíðinni.

Óskar hefur verið heima í heila viku núna og það hefur tekið svo mikið á, að hann á bókað flug til Svíþjóðar strax á mánudaginn :).   Svo fer þessum ferðalögum vonandi að ljúka þetta árið.

Categories: Fréttir

Skeggjaða stúlkan

nóvember 20, 2008 2 ummæli

Sólveig Ósk getur verið mjög þrjósk, eitt af því sem okkur gengur ekkert að sannfæra hana um er að hakan á henni heitir haka, en ekki skegg.  Hún er alveg hörð á því að þetta sé skeggið á henni og biður okkur iðulega að þurrka á sér skeggið, þvo skeggið og kvartar þegar hú meiðir sig í skegginu.   Oft er erfitt að hlæja ekki, t.d. í kvöld þegar hún hafði allt á hornum sér og sullaði svo vatni yfir andlitið og grét „þuuurrka skeggið miiiiitt“.

Óskar er enn í farbanni í Osló, hann er þó væntanlegur heim á morgun ef allt gengur upp.  S.l. viku hafa öll hans símtöl til mín byrjað á orðunum „Heyrðu, ég er í smá vandræðum….“ og alltaf eru vandræðin enn ein nóttin í Osló.  Í versta falli læt ég Elsu og Trausta taka hann nauðugan með sér hingað á morgun þegar þau koma.

Við mæðgur höfum annars skipst á að vera veikar þessa vikuna, Solla var veik á mánudaginn og ég í gær og í dag.  Ég hef þ.a.l. bara mætt einn dag í vinnuna þessa vikuna, en stefnan er að fara á morgun.  Svo verður yndislegt að komast í helgarfrí og jólast aðeins.

Categories: Fréttir

Söngur

nóvember 15, 2008 8 ummæli

Sólveig var til í að setjast fyrir framan myndavélina og syngja afmælissönginn fyrir Elvu Björk, sem á afmæli í lok mánaðarins.   Dýrðina má sjá hér.

Þessa helgina er ég aftur einstæð móðir, helgarmamma.  Það var tölva í Osló í nauðum stödd, þannig að Óskar þurfti að bjarga henni.  Hins vegar vildi ekki betur til en svo að í nótt kviknaði í húsinu sem umrædd tölva og annar búnaður er geymdur.  En ég vona samt að Óskar skili sér heim á tilsettum tíma.

Næstu tvær helgar verða svo gestir hjá okkur, næstu helgi koma Elsa, Trausti, Ósk og Íris og mikil spenna á bænum.  Ósk er að koma og hún og Solla ætla sko að leika!!  Það er sko talið niður.

Categories: Fréttir

Lífsreynslusaga

nóvember 11, 2008 6 ummæli

Ég er komin með aukaverkefni í vinnunni, á hverjum morgni fer ég í bíltúr um bæinn, sæki póstinn okkar á pósthúsið og fer með skjöl á aðalskrifstofu fyrirtækisins.    Ég má ekki fara á mínum bíl, heldur verð að fá lánaðan bíl hjá einhverjum þeirra starfsmanna sem eru með fyrirtækisbíl.  S.l. tvær vikur hef ég því trítlað á skrifstofu fjármálastjórans og fengið lyklana af forláta Audi bifreið og keyrt svo um bæinn eins og aðalgellan á svæðinu.

Í gær kom svo ein af yfirmönnunum úr tveggja vikna fríi og vinnufélagar mínir voru búnar að lofa bílinn hennar alveg í hástert, þannig að ég ákvað að fá hann lánaðan, það er líka mun hentugara fyrir mig þar sem skrifstofan hennar er alveg við mína, þannig að það er stutt að fara.   Glöð í bragði skoppaði ég út af skrifstofunni með lyklana að tryllitækinu og smellti mér inn og setti í gang.  Þá kom sjokk númer eitt, bíllinn var beinskiptur!!  Ég hef ekki ekið beinskiptan bíl í næstum tvö ár, en hélt að þetta væri nú eins og að hjóla maður gleymir því ekki svo auðveldlega.

Þetta var ekkert eins og að hjóla, nema ef maður settist á hjól eftir langt hlé, sætið væri öfugt og stýrið fyrir aftan mann.   Það er nógu flókið að keyra beinskiptan bíl og ekki skánar það þegar gírstöng, kúpling og bensíngjöf eru öll öfug þá flækist málið verulega.  Fyrstu fimmhundruð metrana var ég örugglega búin að drepa fimm sinnum á bílnum, þar sem það eru tvenn gatnamót alveg við skrifstofuna og ég þurfti náttúrulega að stoppa á þeim báðum og taka af stað aftur.  Eftir þá lífsreynslu var ég að spá í að keyra upp á stétt og hringja grátandi í einhvern vinnufélaga og láta sækja mig.  En það hefði verið alveg meiriháttar lame, þannig að ég ákvað að þrjóskast við og klára dæmið.  Mér var allavega lítið skemmt við þetta en komst þó við illan leik á pósthúsið.  Þar fann ég stórt bílastæði og ákvað að gera nokkrar „taka af stað“ æfingar, þar sem ég átti von á að bílinn myndi gefast upp á þessari meðferð fljótlega.

Ég komst þó á leiðarenda að lokum og hefði vel þegið skot af einhverju sterku til að róa taugarnar. Grýtti svo bíllyklunum í eigandann og hrópaði „þetta skrapatól mun ég aldrei taka aftur!!“.  Hefði allavega viljað gera það, en lét það auðvitað ekki eftir mér. :)

Categories: Fréttir

Helgin

nóvember 9, 2008 5 ummæli

Tíminn gersamlega flýgur áfram þessa dagana, ég hugsa að þegar ég vakna á morgun verða komin jól.   Þessa dagana er helst á dagskrá að finna skóla fyrir Sollu.  Ég komst að því á föstudaginn að ég er búin að missa af umsóknarfresti fyrir skólana sem eru reknir af Southampton-borg, en enn er hægt að sækja um skólana í nágrannabæjunum.  Það var alltaf planið að senda hana þangað hvort sem er, en fúlt að missa af hinum.  Ég sendi allavega grátbréf til bæjarskrifstofunnar og fæ örugglega að senda inn umsókn seint.  Á morgun er ég að fara að skoða skóla rétt hjá vinnunni minni.  Vona að þau verði góð við mig :)

Um helgina var Óskar á Íslandi og ég var ein með helgarprógrammið fyrir Sollu.  Við höfðum það mjög gott, fórum í bæinn í gær, skoðuðum í fullt af búðum, keyptum dót í dótabúðinni og enduðum svo með því að kaupa ís.  Svo var gerð tilraun til að fara í feluleik, en Solla er ekkert á því að leita, hún vill bara láta finna sig.   Þannig að ég var komin með bakverk á því að bogra inni í skáp þegar ég fattaði að hún var ekkert að leita að mér, heldur stóð sjálf æsispennt á bak við gardínu.  Það var allavega mjög gaman hjá okkur.

Í morgun fórum við snemma af stað út og lá leiðin til Hedge End á róló.  Bærinn var fullur af fólki þar sem það er remembrance day í næstu viku og í dag var skrúðganga í tilefni af honum.   Við kíktum aðeins á stemminguna löbbuðum svo um bæinn og fórum á tvo rólóvelli, allt gert til að þreyta barnið.  Við fórum svo heim og fengum okkur hádegismat og svo var sest niður og byrjað að föndra jólakort.  Það var mjög gaman og mjög flott listaverkin sem urðu til.  Uppáhaldskortið mitt er hönnun Sólveigar sem sýnir jólasveininn sveifla Rúdolf upp í loft haldandi í hornin á honum.

Á morgun byrjar svo ný vika, Sólveig er farin að taka alltaf eitthvað dót með sér að heiman á leikskólann og það verður gaman að sjá hvað verður fyrir valinu á morgun.  S.l. vikur hefur hún tekið með sér Mikka músar náttbuxur og skýringin á því er að þær þurfi að vera með ef hún skyldi þurfa að gráta.  Mjög rökrétt að náttbuxur bjargi manni ef maður þarf að gráta.  Einn daginn þurftu náttbuxurnar svo að fara í þvott og þá tók hún gamla samfellu með sér.   Það eru oft miklar viðræður hér á morgnanna þegar hún vill fara að taka búslóðina með sér á leikskólann, við leyfum bara einn hlut en hún vill taka mun meira með sér.

Categories: Fréttir

Við kvöldverðarborðið

Mamman er að smyrja sér brauð.   Solla:  „Ég vil líka brauð!“

Mamma: „Já viltu þessa brauðsneið?“ (setur brauðsneið á diskinn hennar Sollu)

Solla: „Nei, ég vil svona brauð“ (stingur vísifingri upp í sig og bítur í hann)

Mamma: „uuu, ég skil þig ekki“

Solla: „Ég vil svona brauð!!“ (stingur tveimur fingrum upp í sig og bítur mjög fast)

Mamma: „Hættu að bíta í puttana þína, hvernig brauð viltu?“

Solla (veifar fingrunum upp í loftið): „Svona brauð“. (bítur svo í höndina á sér aftur)

Mamma: „Viltu samloku?“

Solla: „Jaaaá!!“.

Categories: Fréttir
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.