Archive

Archive for mars, 2010

Diskó-stuð

mars 28, 2010 2 ummæli

Á föstudagskvöldið var haldið diskó í skólanum hennar Sollu.  Mér fannst það frekar skondið, sérstaklega í ljósi þess að nemendur skólans eru á aldrinum 4-7 ára.   Mér fannst ég allavega vera orðin nokkuð gömul að vera að klæða dóttur mína upp fyrir skólaball, svo í bílnum á leiðinni var lagið „I won´t let the sun go down on me“ með Nick Kershaw í útvarpinu og gamla mamma hennar Sollu sagði: „Þetta var nú spilað á diskótekunum hjá mér í gamla daga“  :)   Við vorum s.s. mætt í skólann rétt fyrir klukkan 6, þá var strax búið að myndast löng röð fyrir utan skólann eins og á öllum alvöru skemmtistöðum.   Það var mjög gaman að skoða krakkana í röðinni, flest þeirra voru nú bara klædd eins og búast má við að 4-7 ára krakkar klæði sig.   En svo voru ýkt dæmi inn á milli, t.d. var ein stelpan í svörtum leggings, gulum blúnduhlírabol og á háum hælum,  þá á ég við alveg proper háhælaða skó.  Svo var eitthvað um stelpur í svona Disney prinsessukjólum og einhverjir af krökkunum voru í grímubúningum.

Ég sótti Sollu svo upp úr 7 þegar diskóið var búið og hún hafði skemmt sér alveg svakalega vel.  Ég spurði hana hvort hún hefði verið að dansa með stelpunum úr bekknum, hún neitaði því og sagðist hafa bara dansað við stráka, nánar tiltekið tvo bekkjarbræður sína, Jake og Max.   Það er einmitt sami Jake og bað hana að giftast sér.

Eftir diskóið tók svo við föstudagskvöld frá helvíti.  Það hafði byrjað á því að Pétur var kominn með hita og á meðan ég sótti Sollu var Óskar með hann heima og reyndi að koma ofan í hann hitalækkandi meðali.   Á leiðinni heim í bílnum var Sollu svo mál að pissa að hún endaði með því að pissa á sig.  Þegar ég kom svo heim með hana rennblauta og bílstólinn hennar, var Pétur nýbúinn að æla allt út í eldhúsinu.  Systkinin voru því bæði sett í hrein föt og öllu skellt í þvott.  Ég gerði svo aðra tilraun til að gefa Pétri hitalækkandi, en það endaði með annarri ælu-gusu yfir okkur bæði.   Hann hefur því verið inni alla helgina og er allur að hressast.

Categories: Fréttir

Foreldrafundur

mars 26, 2010 2 ummæli

Í gær fór ég á foreldrafund í skólanum hennar Sollu.   Kennararnir eru alsælir með hana, hún stendur sig sérstaklega vel í því að læra stafina.  Þeim var skipt niður í hópa eftir getu og Solla skaraði svo framúr í sínum hóp að hún var flutt í annan.  Hún er meira að segja farin að skrifa niður orð sem hún heyrir, t.d. kennarinn sagði „this hat is red“ og Solla skrifaði það niður alveg rétt.   Svo er hún stillt og góð, á marga vini bæði stráka og stelpur og henni finnst skemmtilegast að leika sér í hlutverkaleikjum, t.d. dúkkuleik, klæða sig upp og þ.h.  Þannig að þetta leit allt mjög vel út.

Á meðan ég fór á fundinn kom Lucia vinkona okkar og passaði börnin tvö.  Ég hafði sagt við Sollu að hún yrði að hjálpa henni ef á þyrfti að halda.   Það var greinilega tekið mjög alvarlega, því þegar ég kom heim sagði Lucia mér að Solla hefði fylgst mjög vel með henni og látið hana vita ef hún gerði eitthvað vitlaust.  Sú setning sem oftast var sögð var:  „Mamma mín gerir ekki svona!“   Þetta gekk annars ljómandi vel, Solla vanafasta var þó mjög glöð að fá mömmu sína aftur heim og nánast ýtti Luciu út um dyrnar þegar hún var að fara.

Pétur liggur hér alsæll á leikteppinu sínu núna.   Hann er alveg svakalega rólegur og þolinmóður strákur, sem er víst algengt með barn númer tvö.  Það væri örugglega hægt að hafa hann á leikteppinu heilan dag án þess að hann myndi kvarta.   Hann dafnar mjög vel, skv síðustu mælingum er hann 7,4 kg og c.a. 65 cm.

Categories: Fréttir

Verðlaunabarnið

mars 10, 2010 2 ummæli

Síðasta vika var ansi viðburðarík hjá Sólveigu. Á fimmtudaginn fór hún í fimleika og fékk „badge“ og viðurkenningarskjal fyrir að hafa náð „Proficiency Award 7″ skv. breska fimleikasambandinu. Til að ná þeim árangri þarf maður að geta t.d. hlaupið í 1 mínútu, haldið jafnvægi á öðrum fæti, skoppað bolta og gripið og gengið á bekk og snúið við á bekknum án þess að detta. Hún var allavega gífurlega stolt af þessu afreki sínu og við foreldrarnir að sjálfsögðu líka.

Á föstudeginum var svo assembly hjá bekknum hennar. Þ.e. þá er samkoma á sal fyrir alla nemendur skólans, einn bekkur er með skemmtiatriði og foreldrum barna úr þeim bekk boðið að koma. Þemað hjá Sollu bekk var í þetta sinn hattar. Þau komu gangandi í röð inn í salinn og allir með hatt á höfðinu, allir nema fröken Sólveig, hún hélt á sínum hatti. Svo settust þau niður og sungu lag og svo áttu þau að ganga hring í salnum og sýna hattana aftur. Þegar röðin kom að Sollu tók kennarinn hattinn hennar og setti hann á hana, en hún reif hann af sér jafnóðum. Eftir tvær tilraunir gafst kennarinn upp og Solla hljóp hringinn með hattinn í annarri hendi og hina hendina fyrir andlitinu. Seinna um kvöldið útskýrði hún fyrir mér að þetta hefði verið strákahattur og þess vegna vildi hún ekki setja hann á sig.

Eftir sýninguna voru afhent viðurkenningarskjöl til krakka sem hafa staðið sig vel í skólanum undanfarnar vikur. Solla var ein af verðlaunahöfunum í þetta sinn, fékk viðurkenningu fyrir miklar framfarir. Af um 200 krökkum í skólanum voru bara um 20 sem fengu viðurkenningu þannig að ég var að sjálfsögðu stolt.

Pétur kom með mér á assembly-ið og var hegðun hans til fyrirmyndar alveg þangað til það átti að vera þögn. Þá byrjaði hann að berjast um á hæl og hnakka, vildi vera uppréttur, vildi hvorki pela né snuð og var allur á iði. Ég þurfti því að forða mér með hann út úr salnum í smá stund. Svo þegar ég hélt að hann væri orðinn rólegur, fór ég aftur með hann inn í sal og hann kúkaði þá með miklum látum. Þannig að aftur fór ég með hann fram, það er svosem ekki hægt að ætlast til að 3ja mánaða barn kunni sig í margmenni :)

Categories: Blogroll

Pétur að tala

mars 9, 2010 5 ummæli

Þetta vídeó var tekið eitt síðkvöldið hér,  Pétur var allur á iði og þess vegna er byrjunin á myndbandinu svolítið shaky, hann tók svo eftir myndavélinni og byrjaði strax að ræða málin.  Hann hefur áhyggjur af icesave, kvótakerfinu og ýmsu öðru.

Categories: Videó
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.