Archive

Archive for the ‘Fréttir’ Category

Afmælisdrengur

desember 6, 2013 2 ummæli

Þá er enn og aftur komið afmæli hjá okkur, að þessu sinni fagnar Pétur 4 ára afmæli sínu.  Eins og hjá alvöru stórmennum teygðist aðeins úr hátíðarhöldunum þannig að veisluhöld stóðu í tvo daga.  Við ákváðum að hafa afmælisköku, pakka og kerti eftir leikskólann þann 4. des þar sem pabbinn var á jóladinner Comhem á afmælisdaginn sjálfan.   Þegar við komum heim af leikskólanum var Óskar búinn að blása upp blöðrur, leggja á borð og beið eftir okkur úti með stjörnuljós.   Svo var boðið upp á köku, kleinuhringi og súkkulaði og svo voru pakkarnir opnaðir.  Amma Solla slóst í hópinn á skype þannig að það var fjör við borðið.

Hann var hæst-ánægður með gjafirnar, Lego kubba, flugvél, úlpu og fartölvu.  Fartölvan er fyrir börn og á henni eru ýmsir þroska- og kennsluleikir.  Uppáhaldsleikurinn hans er stafaleikur, þá ýtir hann á bókstaf og tölvan segir honum hvað bókstafurinn heitir og gefur dæmi um eitt orð.  T.d.  „Det er bokstaven C, C för citron“.  Tölvan talar sumsé sænsku og svo er allt of auðveldlega hægt að skipta yfir í finnsku, sem þykir mikið fjör.

Fáni

 

Á afmælisdaginn leit svo anddyrið á deildinni hans á leikskólanum svona út, búið að flagga afmælisbörnum dagsins til heiðurs.  Þar var líka sungið og svo fengu afmælisbörnin að vera fremst í öllum röðum dagsins, ég get ímyndað mér að okkar manni hafi ekki þótt það leiðinlegt.

Categories: Fréttir, Uncategorized

Gullkorn

nóvember 28, 2013 Færðu inn athugasemd

Pétur er að leika við kött, ég sit hjá honum og hann spyr mig „á afi Gústi kött?“, ég svara já, þá lítur hann á köttinn og segir „Viltu koma með til afa Gústa? Þar er líka köttur!“

 

Við fórum í Halloween partý með bekknum hennar Sollu um daginn, þetta var klukkan 18 a föstudagskvöldi, Óskar hafði þurft að fara með vinnufélögum sínum út og var þvi fjarri góðu gamni. Við Solveig vorum að ræða saman fyrir partýið.

Ég: Við verðum að taka strákana með af því að pabbi verður ekki heima og barnapían er upptekin.

Solla: Verðum við ekki bara að fá okkur nýja barnapiu?

Ég: Ég myndi helst vilja fá barnapíu sem býr hjá okkur.

Solla: Já! Svona stjúpsystur!

 

Pétur var lasinn og lá fyrir í gestaherberginu á meðan við borðuðum kvöldmat. Hann kom svo fram þegar ég var að ganga frá og sagðist vilja mat.   Ég : Viltu svona kjúkling.      Pétur: Nei, ég vil bara svona piparkökumat.

 

Sólveig var að gera heimaverkefni sem gekk út á það að semja spurningar og taka viðtal við einhvern heima.    Hún kom svo fram eftir að hafa samið spurningarnar og spurði mig: „Mamma, hvað er idolið þitt?“.   Ég hugsaði mig um og ætlaði að koma með eitthvað mjög djúpt svar, eitthvað leiddist Sólveigu biðin og sagði „æi, viltu ekki bara segja Elvis?!“.   Þannig að Elvis var það.

Categories: Fréttir

Afmælisfjör

Untitled

Þann 3. júlí átti Sólveig 8 ára afmæli og var því að sjálfsögðu fagnað.  Við vorum svo heppin að Elsa,Trausti, Ósk og Íris ákváðu að skella sér í heimsókn til okkar frá Noregi, þannig að það var fjölmenni á bænum.    Við tókum afmælisdaginn snemma, Sólveig fékk nokkrar gjafir og svo drifum við litlu strákana á leikskólann og skelltum okkur í bæinn.   Við byrjuðum á því að fara á Musikmuseet í Stokkhólmi, það er mjög skemmtilegt safn með hljóðfærum og það má prófa meirihlutann af þeim.  Afmælisbarnið fékk því að spila á trommur, rafmagnsgítar og alls konar strengjahljóðfæri.

Eftir safnið var farið í afmælislunch á TGI Fridays á Östermalm.  Ég laumaði því að þjóninum okkar að Sólveig ætti afmæli í dag og það komu því þrír syngjandi þjónar með blys og færðu henni eftirmatinn.   Við ættum að vera farin að læra að Sólveig er ekki mjög hrifin af óvæntum uppákomum og hún varð vægast sagt hissa og vissi hreinlega ekkert hvernig hún átti að vera.  Hún var þó sátt við þetta á endanum og er enn að spyrja mig hvernig þjónarnir hafi eiginlega vitað að hún ætti afmæli.

Categories: Fréttir

Skemmtileg helgi

júní 18, 2013 1 athugasemd

Þá er kominn tími á að bretta upp ermarnar og endurvekja þetta blogg.   Nú er sumarið komið hjá okkur, í síðustu viku voru skólaslit hjá Sólveigu.  Það er alltaf mikið fjör, byrjar með söng og ræðuhöldum og að því loknu er sumarhátíð.   Á sumarhátíðinni er hver bekkur með veitingasölu og afþreyingu, í ár var Sólveigar bekkur með kókosbollusölu og svokallaðan „strutfotboll“, hér má einmitt sjá Sólveigu og vinkonu hennar keppa í strutfotboll.

 

Síðastliðinn laugardag var svo mikið fjör hjá okkur.  Byrjaði með síðasta fótboltaleik Sólveigar þetta tímabilið, í þetta sinn prófaði hún að vera í marki í fyrri hálfleik og það gekk vel, hún hélt hreinu eins og fagmennirnir orða það.   Liðið hennar vann svo leikinn 6-2 og var það fín upphitun fyrir restina af deginum.  Eftir leikinn brunuðum við svo heim og hófum undirbúning fyrir 8 ára afmælisveislu aldarinnar.   Sólveig bauð 10 vinkonum sínum í afmæli og var mikið fjör, við fengum frábært veður þannig að þær gátu leikið sér í  garðinum okkar, hoppað á trampólíni, rólað og farið í handahlaup.   Svo var dansgólf á pallinum og dekkað borð í sólskálanum, frábært partýhús sem við búum í.   Við vorum allavega alsæl eftir veisluna þar sem þetta gekk mjög vel.

Categories: Fréttir

Performerinn

maí 2, 2013 1 athugasemd

Já, jólin eru víst löngu búin og páskarnir meira að segja líka.    Það hefur verið lítið um stórviðburði hjá okkur eftir áramótin, síðastliðnir mánuðir hafa einkennst af miklum kulda og við fjölskyldan höfum skipst á að vera lasin, einn til tveir í einu nánast stöðugt frá janúarlokum.  Nú er hins vegar betri tíð með blóm í haga, snjórinn farinn og hitastigið sígur hægt og rólega upp á við.

Sólveig afrekaði að taka þátt í hæfileikakeppni skólans, sem var mjög gaman.  Hún samdi dans ásamt þremur bekkjarsystkinum sínum og þetta gekk mjög vel hjá þeim.   Þau höfðu mjög gaman að þessu og eru strax farin að spá í hæfileikakeppni næsta árs og það eru ýmsar hugmyndir á teikniborðinu.  Hún sagði mér um daginn að hún væri ekki viss hvort hún ætlaði að syngja dúett með Amöndu eða sýna knatttækni með Elíasi, verður spennandi að sjá.

Við höfum allavega gaman að því hvað henni virðist finnast gaman að koma fram.  Þegar við fórum á jólaball Íslendingafélagsins fengum við blað með okkur heim með nokkrum íslenskum jólalögum.  Sólveig var næstu daga á eftir sísyngjandi „Bjart er yfir Betlehem“ og einn daginn sagði hún mér að henni finndist þetta svo æðislegt lag að hún ætlaði að syngja það fyrir bekkinn.   Ég sagði bara já og spáði svo ekki meira í það.   Nokkrum dögum seinna hitti ég svo kennarann hennar sem tjáði mér að Sólveig hefði sungið fyrir þau jólalag á íslensku og staðið sig svakalega vel.

Um daginn fórum við á bókasafnið og sóttum kennslubók á blokkflautu og hún er aðeins byrjuð að leika sér að spila.  Ég er mjög svo strangi kennarinn hennar og það hefur bara gengið vel.  Þegar við vorum búnar að taka tvær kennslustundir á flautuna kom hún heim úr skólanum og sagðist hafa fengið leyfi hjá kennaranum til að koma með flautuna í skólann og spila tvö lög fyrir bekkinn.  Mér leist nú ekkert á þessa hugmynd fyrst en var ekkert að draga úr henni og hún æfði tvö lög og spilaði þau fyrir bekkinn og gekk bara vel.

Um daginn átti svo besta vinkona hennar í bekknum afmæli og Sólveig tók íslensku söngbókina með sér og söng Frjálst er í fjallasal fyrir hana og bekkinn.  Af því tilefni komumst við jafnframt að því að það er ekki íslenskt lag (frekar en önnur).

Categories: Fréttir

Jólin 2012

janúar 1, 2013 2 ummæli

Hjá Svíunum byrja jólin með Luciu hátíðarhöldum, það hittist reyndar þannig á að það var lítið um að vera hjá okkar börnum þennan dag. Í skólanum hjá Sólveigu sá annar árgangur um skemmtiatriðin þannig að þau voru áhorfendur og þurftu ekki að klæða sig upp. Það sama var upp á teningnum hjá Pétri, hans deild fór að horfa á börn af annarri deild syngja. Sá eini sem fékk smá Luciuskemmtun var Óskar Hermann, á deildinni hans í leikskólanum var foreldrum, systkinum og öðrum sem vildu koma boðið á söngskemmtun og kaffiboð. Það var mjög gaman, allir sátu á gólfinu í einu af leikherbergjunum og sungu saman.

Untitled

Desember einkenndist annars af mikilli snjókomu, það snjóaði nánast daglega og ekki hægt að segja annað en að jólin hafi verið eins hvít og þau geta orðið. Snjólagið í garðinum hjá okkur var örugglega að nálgast meter og við ferðuðumst um með krakkana á snjóþotum.

Jólafríið byrjaði 21. des, þá voru formleg skólaslit hjá Sólveigu. Farið var í tónlistarhús í nágrenni skólans og þar sungu 4 árgangar lög fyrir foreldra og systkini. Svo voru ræðuhöld og önninni formlega slitið, mjög flott allt saman. Síðasti vinnudagur Óskars fyrir jólafrí var líka 21. des. Við ákváðum að leigja okkur bíl yfir hátíðarnar og sóttum hann þennan föstudagsmorgun. Þann 22. des brunuðu Óskar og Solla svo út á flugvöll og sóttu ömmu Björgu og afa Þórð, þau voru hjá okkur fram til 28. des. Það var mjög gaman að fá gesti og mikill lúxus að hafa aukamannskap til að leika við börnin, það voru ófáar ferðirnar út í snjóinn að leika og margar ferðir farnar niður Moränvägen á snjóþotum. Á Aðfangadag eldaði amma Björg svo kalkún og tilbehör og bjó til súkkulaðimús í eftirmat. Eftir mat og pakkaopnun tókum við svo sænsku jólin með trompi og dönsuðum m.a. „Nu er det jul igen“ um efri hæðina.

Aðfangadagur 2012

Á annan í jólum var komið að langþráðu foreldrafríi okkar Óskars. Við fórum til Uppsala, gistum á Radisson hótelinu sem við gistum á í sumar. Mjög fínt mini-frí hjá okkur, gengum mjög mikið, borðuðum góðan mat og hvíldum okkur. Kíktum svo aðeins á útsölurnar áður en við brunuðum aftur til Stokkhólms. Kíktum m.a. í IKEA sem er nauðsyn í rómantískum ferðum.

Jól og áramót 2012

 

Á áramótunum vorum við fjölskyldan bara í rólegheitum, elduðum þessa fínu sænsku jólaskinku sem var algert lostæti.  Um kvöldið var verið að skjóta upp einum og einum flugeld í nágrenninu, mjög rólegt.  Við sögðum Sollu að það væri örugglega ekkert skotið mikið upp í Svíþjóð þannig að henni væri alveg óhætt að fara bara að sofa klukkan 11.  á miðnætti þegar við Óskar sátum svo yfir skaupinu varð hins vegar allt brjálað úti, skotið upp flugeldum eins og á Íslandi en það stóð hins vegar ekki lengi yfir, menn fagna greinilega bara nýja árinu um leið og það „dettur inn“.  Börnin sváfu þetta hins vegar af sér.

Síðustu daga höfum við svo verið að koma okkur rólega aftur í rútínuna, Pétur fór á leikskólann á miðvikudag og fimmtudag og Sólveig í fritids á fimmtudag og föstudag.  Pétur og Óskar H fara svo báðir í leikskólann á mánudaginn og Óskar fer þá líka aftur í vinnuna.  Sólveig byrjar svo í skólanum á þriðjudaginn.

Categories: Fréttir

Á jólaballi

desember 17, 2012 Færðu inn athugasemd

Á sunnudaginn fór Beggó með Sólveigu og Pétur á jólaball Íslendingafélagsins í Stokkhólmi.  Það var ágætis skemmtun, dansað í kringum jólatré, sungið saman, flott kaffihlaðborð og fullt krökkum að leika við.   Hápunkturinn var svo þegar jólasveinar komu og gáfu öllum krökkunum pakka.  Mín börn fengu nýjar húfur og voru alsæl.

Hér fylgir smá myndband sem sýnir vel muninn á börnunum mínum,

Categories: Fréttir
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.